2. september 2015 – 34 ára afmælisdagurinn

Það var ekki flókið fyrir mig  að muna hvað hún Eva mín var gömul, – því ég er fædd 1961 og hún 1981.  Tæp 20 ár á milli okkar,  – svo hún hefði orðið 34 áraí dag,  en amma “gamla”  verður 54 ára í nóvember.

Ég hef lært að lifa með dótturmissinum,  en á ákveðnum dögum á ári þá leyfi ég mér að vera viðkvæm.  Rifja upp þegar fyrsta barnið mitt fæddist og allt fram til dánardagsins,  8. janúar 2013.  Aðdragandinn að brottför Evu var afskaplega grimmur og erfiður okkur öllum,  – og það er eitt af því sem var og er erfiðast að komast yfir.

Þetta er þriðji afmælisdagurinn þar sem Eva Lind er ekki hjá okkur,   og fyrstu tvo var ég í Hornslet með börnunum hennar, Henrik og fjölskyldunni hans.   Þetta er því í fyrsta skipti frá andláti að ég er ekki með þeim á þessum degi og mér finnst það hálfskrítið.

Ég fékk leyfi frá vinnu í dag  og ætla að vera með börnunum mínum í Reykjavíkinni, – og svo ætlum við eins og ein friðelskandi fjölskylda að borða saman öll með pabba þeirra og Birnu konu hans, og börnunum þeirra í kvöld.   Það er svo heilandi að vera í kringum litlu börnin svo ég hlakka til þess. En þau eiga þrjú lítil kríli og svo verður Eva Rós dóttir Tobba með okkur líka.

Við eigum ekki erfitt með að púsla okkur svona saman – ekki síst vegna þess að við vitum að við erum að heiðra minningu Evu Lindar.  Það eru svo margir sem finna til í hjörtum sínum í dag,  því hún var svo mikið elskuð og átti svo marga sem hún hafði snert.

Við sem eigum eftir að eiga mörg “jarðnesk” afmæli höldum áfram okkar lífi í gleði og jákvæðni, í fullvissu þess að verða tengd enn betur einhvern tímann seinna – í þessari óskiljanlegu vídd þangað sem við mætum síðar.

Ást, Gleði,  Friður  …. (verð að skrifa þetta,  því Eva gerði oft grín að þessu hjá mömmu sinni)

Verum glöð og jákvæð og njótum lífsins á meðan við erum lifandi.

2214_1095225094607_3270_n