Minning

Eva Lind Jónsdóttir

Eva Lind Jónsdóttir fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík að kvöldi dags 2.9. 1981. Hún lést á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn 8. janúar 2013 eftir stranga en skammvinna baráttu við sjaldgæfan blóðsjúkdóm aðeins 31 árs gömul.
Foreldrar Evu Lindar eru Jón Þórarinsson flugstjóri, f. 26.7. 1960, sonur hjónanna Þórarins Þ. Jónssonar, löggilts endurskoðanda, f. 7.6. 1938, d. 23.11. 2009, og Þorbjargar Jónsdóttur sjúkraliða, f. 20.12. 1939, og Jóhanna Magnúsdóttir guðfræðingur, f. 21.11. 1961, dóttir hjónanna Magnúsar Björnssonar, starfsmannastjóra Flugfélags Íslands, f. 19.6. 1928, d. 8.7. 1969, og Valgerðar Kristjánsdóttur, skrifstofumanns hjá VR, f. 3.11. 1926. Systkini Evu og börn Jóns og Jóhönnu eru tvíburarnir Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst Jónsbörn, f. 25.9. 1986.

Núverandi eiginkona Jóns Þórarinssonar er Birna María Antonsdóttir háskólanemi, f. 8.3.1977, sonur þeirra og bróðir Evu Lindar er Anton Örn, f. 9.4. 2010. Maki Jóhönnu er Jón Friðrik Snorrason, matreiðslumeistari, f. 8.2. 1962.

Eva Lind lætur eftir sig tvö börn, þau Ísak Mána Jörgensen, f. 27.4. 2004, og Elisabeth Mai Jörgensen, f. 7. 5. 2009. Þau eru börn Evu Lindar og fv. eiginmanns hennar, Henriks Jörgensen, f. 25.1. 1974, en þau skildu í ársbyrjun 2012.

Eva Lind varði meginhluta æskuáranna í Garðabæ, gekk í Flataskóla, síðar Garðaskóla og lauk stúdentsprófi árið 2001 frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Eva Lind stundaði fimleika, ballett, djassballett, lærði söng og svo síðustu árin stundaði hún göngur og hlaup. Eva Lind var ástríðufull hvað ritstörf varðaði og skrifaði hugsanir sínar og hugmyndir niður bæði í ljóðum og frásögum. Hugur hennar stefndi að því að verða rithöfundur og hafði hún sótt um inngöngu í sérstakan skóla í Danmörku hvað það varðaði. Skólastjórinn hafði veitt henni athygli og vildi fá umsóknina beint til sín. Sem unglingur var hún iðin og uppátækjasöm, og stofnaði kaffihús á Garðatorgi aðeins 15 ára gömul ásamt vinkonu sinni. Sumarstörfin voru m.a. í Byko og á Hótel Eddu í Nesjaskóla, hún starfaði einnig í Snælandsvídeói og á veitingahúsunum Ítalíu og Asíu samhliða námi. Eva Lind var leiðbeinandi í sunnudagaskóla í Víðistaðakirkju ásamt móður sinni og systkinunum Tobba og Jóhönnu Völu.

Eftir stúdentspróf lá leiðin til Danmerkur í ævintýraleit. Kynntist hún þar Henrik Jörgensen, samstarfsmanni á verkstæðinu „Bileplejen“ sem varð barnsfaðir hennar og síðar eiginmaður. Þau fluttu heim til Íslands 2006 og fór þá Eva Lind í viðskiptafræði í HÍ auk þess sem hún starfaði hjá afa sínum á Endurskoðunarskrifstofu ÞÞJ. Hún starfaði einnig við yfirsetustörf hjá Menntaskólanum Hraðbraut. Árið 2009 giftu þau Henrik sig um leið og yngra barnið, Elisabeth Mai, var skírð og brátt héldu þau aftur utan til Danmerkur til búsetu. Eva Lind starfaði fyrst um sinn á öldrunarheimilinu í Hornslet en fékk síðan vinnu á skrifstofu Europecar í Árósum og starfaði hún þar til dánardags.

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 18. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

„Mamma, slökktu ljósið, lokaðu gluggunum, lokaðu dyrunum, ég ætla að loka augunum og gerð þú það líka.“ Þetta eru skilaboðin sem Eva Lind skildi eftir hjá mér á nýársdag 2013, áður en hún var sett í öndunarvél. Ég vissi vel hvað þetta táknaði og fyrir hvað þetta stóð, þó að ég vildi að sjálfsögðu halda í vonina að Eva mín kæmist til lífsins á ný.
Við höfðum staðið í baráttunni saman, frá því að ég kom út til hennar 20. desember sl., þegar ég ætlaði bara að koma og taka hana með mér heim, en það fór öðru vísi, allt allt öðru vísi en við ætluðum okkur.

Eva Lind lifði lífi þar sem hún gaf. Hún bar nafn með réttu, en nafnið hennar þýðir lifandi lind. Við sem þekkjum hana vitum að hún mun alltaf halda áfram að gefa þó að það sé sárara en tárum taki að hafa hana ekki meðal okkar hér í jarðvistinni.

Eva Lind átti dyggan vinkvennahóp, og má segja að slóð þeirra liggi allt frá bernskulóðum. Þær eru of margar til að telja þær hér upp með nafni, en yndislegar upp til hópa og voru hluti af þeim fjársjóði sem Eva Lind átti í fólkinu í kringum sig. Eva Lind elskaði bæði vinkonur sínar, vini og fjölskyldu. Eva Lind var fyrsta barnabarn ömmu Tobbý og afa Kela og var vel um hana hugsað á heimili þeirra og að sama skapi hjá ömmu Völu. Þegar við foreldrarnir fengum flugur í höfuðið að bregða okkur til útlanda var aldrei vandamál að passa, þó að fyrirvarinn væri skammur – bæði hana og svo systkini hennar Jóhönnu Völu og Þórarin Ágúst, en Hneta, labradorinn okkar var örlítill „höfuðverkur“ en átti þó skjól hjá Tonný frænku.

Við sem eftir stöndum, stöndum með flakandi sár, því verður ekki neitað, en það sem hefur verið svo stórkostlegt er að sem aldrei fyrr höfum við fundið kærleikann og samhug í vinum, vandamönnum og meira að segja hjá fólki sem er nær ókunnugt. Einhvern veginn hefur Eva Lind og hennar saga snert svo marga og því væntanlega veitt meiri kærleika inn í líf fleiri manns.

Umhyggjan, elskan og vináttan hefur verið gegnumgandandi þema í gegnum erfiða píslargöngu.

Eva Lind átti sér þá ósk að börnin hennar Ísak Máni og Elisabeth Mai yrðu alin upp í gleði og jákvæðni og við ætlum að styðja föður þeirra Henrik Jörgensen í því að uppfylla þær óskir, einnig við að sinna því ábyrgðarfulla hlutverki að taka að sér móður- og föðurhlutverk. Börnin eiga góða að, yndislega „Bedste“ og „Farfar“ í Danmörku, Þau Arne og Jenny og það þakka ég líka.

Ég vildi skrifa svo margt, en ég skrifa meira á öðrum vettvangi, þetta verður kveðjan til hennar Evu minnar og þakklæti til þeirra sem hafa hjálpað. Yndislegar vinkonur, vinir og ættingjar.

Elsku Eva mín, þakka þér fyrir að hafa verið svona yndisleg alla tíð.

Ég loka augunum og bið bænirnar okkar með þér.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Í nafni Guðs föður sonar og heilags anda.

Guð geymi þig. Góða nótt, elsku Eva Lind mín „umma“

Mamma.

Leave a comment