Allt hefur sinn tíma …

Skrifað 28. febrúar 2013

Það var ein óþolinmóð átta ára sem leyfði sér að grafa aðeins niðrí eitt blómakerið sem sendur hér fyrir framan Túngötuna á Hvanneyrinni góðu, sl. haust.

Við höfðum sett niður haustlauka og hún vildi kíkja hvort þeir væru ekki örugglega byrjaðir að vaxa.

Ég þekki líka þessa óþolinmæði,  að vilja fara að grafa og kíkja hvað er að gerast.

Allt hefur sinn tíma segir prédikarinn. “Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma. Að fæðast hefur sinn tíma og að deyja hefur sinn tíma, að gróðursetja hefur sinn tíma og að rífa upp, það sem gróðursett hefur verið hefur sinn tíma”. (Préd.3:1-2)

Við höfum látið laukana í friði og það fer að koma vor,  fjórir toppar eru farnir að kíkja upp úr einu kerinu og nú vitum við að falleg blóm munu koma með vorinu,  kannski fyrir páska!

Ef við hefðum ekki treyst því að laukarnir kæmu upp,  án þess að við fylgdumst með því  hefðum við bara grafið laukana alveg upp og alltaf verið að kíkja og þannig skemmt fyrir vexti þeirra – og þá væru engir laukar að gægjast upp úr moldinni núna.

Það getur verið erfitt að bíða,  en verra að treysta því ekki að eitthvað gerist nema maður fari að grafa í moldinni og fylgjast með,  eða jafnvel að toga laukana upp sjálfur,  því þá er búið að skemma fyrir vextinum – og tímanum sjálfum.

Það er dimmt í moldinni, en hún nærir og þegar tíminn er kominn teygir laukurinn sig í ljósið og hann veit að ljósið er þarna.

Þetta þurfum við mennsku laukarnir að hafa í huga.

Mynd_0640017

 

Leave a comment