Á öllum stundum ert þú …

Þann 15. nóvember sl. var mamma þín vígð til prests. Þar sem hún sat þarna uppi í kórnum í Skálholtsdómkirkju – hugsaði hún til þín og hvað þú hefðir verið montin af mömmu þinni. –  Við allar stórar – og líka smáar – stundir ertu í huga mér og hjarta.

Við Vala fórum í ilmolíukynningu í gærkvöldi, – og þar sem við sátum og önduðum að okkur fornum ilmi, fannst mér þú vera þarna með okkur.  Þú, “poppar” alltaf upp, og alltaf svona pinku húmor í þér. Pinku að gera grín að mömmu, – því að þú ert að segja henni að þú sért hérna og ég eigi ekki að ímynda mér neitt annað.  Þú ert alltaf.

Ég er svo þakklát fyrir þig, því ég væri örugglega ekki þar sem ég er í dag án þín.  Það er eitthvað svo undur magnað við þig.  Þú varst og þú ert stóra stelpan mín.  Svo stór á svo marga vegu, og aldrei stærri en núna.

Þú ert með mér á öllum mínum ferðalögum, – á Hellisheiðinni í vonda veðrinu, i gegnum veikindi og líka í gleðinni.  Kannski sérstaklega í gleðinni því ég heyri hlátur þinn um leið og ég hugsa til þín.  Það er auðvelt að muna eftir honum.

Elska þig til tunglsins og til baka.

Mamma ❤

Leave a comment