Mamma mia ..

Við Vala fórum loksins að sjá Mamma Mia í Borgarleikhúsinu.  Við fengum miða með dags fyrirvara á 3. bekk.  Skrítið?   Nei ekki skrítið.   Þegar við komum á sýninguna – var eitt sæti laust við hliðina á okkur,  skrítið – nei ekki skrítið.   Ekki það þú þurfir sæti Eva mín, en þetta var táknrænt,  því þegar við Vala förum eitthvað tvær finnst okkur þú alltaf vera með okkur – og hvað þá þegar við förum að sjá Mamma Mia!!!  sem var þín mynd,  þú varst stelpan og ég mamman, ekki satt? 😀 ..

Svo þegar þú giftir þig var rokið til og saumaður brúðarkjóll að fyrirmynd kjólsins hennar Sophie í Mamma Mia. –

2013 …2014 …2015 …2016 .. 2017 er komið – svo ótrúlega skrítið, en svona er þetta. –
Ég vissi fyrirfram að það yrði smá erfitt en samt gaman að horfa á þennan söngleik.  Það var styrkur að vera með Völu.
Það byrjaði auðvitað á “Ég á mér draum” .. og þá fóru tárin að leka og ég hugsaði með mér: “Ó, nei – verð ég grátandi alla sýninguna” ..   úff, en það bætti úr – og svo var mikið hlegið og mikið gaman.   En svo kom lagið okkar,   um að frysta stundina – og samsöngur móður og dóttur þar sem dóttirin var að máta brúðarkjólinn og þá varst þú eiginlega þar,  eða þetta var alveg eins. Taktarnir og kjóllinn .. allt minnti á þig.   Og þá fór leikhúsbekkurinn að hristast, eða mér fannst það.  ❤   Það var ljúfsárt að horfa á þetta,  og sem betur fer var mikil gleði – og ég var þakklát fyrir að hafa ekki misst af þessu. –

Ég skrifa þetta svona til þín,  eins og þú lesir – og væntanlega gerir þú það – ég veit ekkert hvernig þetta virkar allt saman – en mér finnst betra að trúa því. –   Það er ekki hægt að hafa minningarsíðu án þess að uppfæra hana við og við, og þetta fannst mér vera tækifæri.


Það er liðlega vika síðan við fórum að sjá leikritið –  og í dag komu systkini þín og nafna þín Eva Rós í heimsókn.   Ég held að það sé ekki til betra samband milli móður og barna en við eigum,  – ég og þau.   Það er svo mikið þér að þakka,  því þau hafa þroskast svo fallega og eru svo hugsandi og heil, ekki síst vegna þín.   Bæði vegna þess hversu góð fyrirmynd þú varst þeim alltaf,  og vegna þess sem þau hafa lært um lífið – við brottför þína úr þessu jarðneska. –    Ég sá mynd á síðunni hjá henni Karen af ykkur bestu vinkonunum  – sem kveikti þessa færslu, ég “stal” henni og set hana hér með,  ég veit að hún fyrirgefur það.

Takk fyrir allt Eva mín eilífa uppspretta.

Þín Mamma (Mia)  🙂
Eva giftir sig

Leave a comment