Hvernig borðar maður fíl? …

Skrifað 20. janúar 2013

“Hvernig borðar maður fíl?” …  spurði grískukennarinn þegar ég stundi yfir álaginu við grískunámið í guðfræðideildinni á sínum tíma.-

Jú,  með því að taka einn bita í einu auðvitað. –

Nú líður mér eins og ég hafi gleypt fíl, og hann tekur of mikið pláss innan í mér.  Það er þröngt fyrir hjartað og þröngt fyrir lungun og þá er erfitt að anda. –

Það er þó ýmislegt sem léttir á pressunni,  svona inn á milli.

Litla Eva,  Eva Rós var hjá okkur í eftirmiðdag og kvöld,  en yndisleg vinkona – yndislegt vinafólk lánaði okkur húsnæði í Reykjavík svo við gætum sinnt erindum og verið nær fjölskyldunni um helgina.  Húsinu fylgir heitur pottur og allir fóru í heita pottinn og Eva Rós tilkynnti að hún væri “í baði með vini sína” –  og barn er blessun og hægt að brosa og svo kemur hún í fangið á ömmu Jógu og faðmar svo fast.  Reisir sig svo upp og við horfumst í augu,  djúpt, djúpt og þá er hún ekki lengur tveggja heldur eins og einhver sem veit eitthvað.

Samfélagið við börn er heilandi,  þau eru svo heil og hrein.

Ég gleðst yfir öllu nýju börnunum sem eru að fæðast,  litla frænda, Magnúsar – og Kötusyni,  afabarni Bjössa bróður og Addýjar mágkonu sem kom í heiminn á afmælisdegi ömmu Völu í nóvember,  litlu stúlkunni hennar Þóreyjar, Evu Lindarvinkonu, sem fæddist núna fyrir nokkrum dögum,  lítill nokkurra mánaða Klörusonur er í þeim hópi og svo var að koma önnur lítil Önnu Guðrúnar dóttir,  svo yndisleg var ég að sjá á Facebook.   Að ógleymdu því að Sylvía vinkona var að verða amma og hún Róslín vinkona mín var að verða föðursystir.

Lífið er að kvikna allt í kring,  mitt í dimmri sorg.

Já, “tilveran er undarlegt ferðalag”…

Það er erfitt að kyngja því að stelpan mín er farin,  að ég mæti henni ekki aftur á lestarstöðinni í Árósum,  ég skimi eftir henni út um lestargluggann og faðmi hana fast, fast á brautarpallinum.

Það er erfitt að kyngja því að horfa upp á sorg yngri systkina hennar.  Sorg pabba hennar,  sorg vinkvenna,  sorg vina,  sorg frænkna og sorg frænda, sorg ömmu,  sorg barna hennar,  barnabarnanna minna – það eru margir snertir.

Ég gleypti fíl í heilu lagi,  það tekur tíma að losa sig við hann,  það er ekki hægt að skila honum í heilu lagi til baka,  það tekur tíma,  bita fyrir bita.

Eva sagði að þetta yrði erfiðara fyrir okkur en hana,  hún færi en við myndum syrgja, – svo bætti hún við “þú skilur þetta mamma”  þó það væri yfirýsing en ekki spurning – þá jánkaði ég því …… því ég skildi það, en það var samt sárt að heyra.

Mig langar að reynast mínu fólki ljós,  eins og það að sjá nýfæddu börnin eru mér ljós.

Eins og barnabörnin eru mitt ljós.

Að sjá þau blómstra gefur nýja von.

Að sjá  systkini Evu LIndar blómstra gefur líka nýja von.

Það tekur sinn tima.

Ég þarf að fylla á ljósið.

Þannig saxast á fílinn.2163399_f520[3]

Leave a comment