Minningargreinar um Evu Lind

Eva Lind Jónsdóttir

Eva Lind Jónsdóttir fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík að kvöldi dags 2.9. 1981. Hún lést á Ríkisspítalanum í Kaupmannahöfn 8. janúar 2013 eftir stranga en skammvinna baráttu við sjaldgæfan blóðsjúkdóm aðeins 31 árs gömul.

Foreldrar Evu Lindar eru Jón Þórarinsson flugstjóri, f. 26.7. 1960, sonur hjónanna Þórarins Þ. Jónssonar, löggilts endurskoðanda, f. 7.6. 1938, d. 23.11. 2009, og Þorbjargar Jónsdóttur sjúkraliða, f. 20.12. 1939, og Jóhanna Magnúsdóttir guðfræðingur, f. 21.11. 1961, dóttir hjónanna Magnúsar Björnssonar, starfsmannastjóra Flugfélags Íslands, f. 19.6. 1928, d. 8.7. 1969, og Valgerðar Kristjánsdóttur, skrifstofumanns hjá VR, f. 3.11. 1926. Systkini Evu og börn Jóns og Jóhönnu eru tvíburarnir Jóhanna Vala og Þórarinn Ágúst Jónsbörn, f. 25.9. 1986.

Núverandi eiginkona Jóns Þórarinssonar er Birna María Antonsdóttir háskólanemi, f. 8.3.1977, sonur þeirra og bróðir Evu Lindar er Anton Örn, f. 9.4. 2010. Maki Jóhönnu er Jón Friðrik Snorrason, matreiðslumeistari, f. 8.2. 1962.

Eva Lind lætur eftir sig tvö börn, þau Ísak Mána Jörgensen, f.

27.4. 2004, og Elisabeth Mai Jörgensen, f. 7. 5. 2009. Þau eru börn Evu Lindar og fv. eiginmanns hennar, Henriks Jörgensen, f. 25.1. 1974, en þau skildu í ársbyrjun 2012.

Eva Lind varði meginhluta æskuáranna í Garðabæ, gekk í Flataskóla, síðar Garðaskóla og lauk stúdentsprófi árið 2001 frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Eva Lind stundaði fimleika, ballett, djassballett, lærði söng og svo síðustu árin stundaði hún göngur og hlaup. Eva Lind var ástríðufull hvað ritstörf varðaði og skrifaði hugsanir sínar og hugmyndir niður bæði í ljóðum og frásögum. Hugur hennar stefndi að því að verða rithöfundur og hafði hún sótt um inngöngu í sérstakan skóla í Danmörku hvað það varðaði. Skólastjórinn hafði veitt henni athygli og vildi fá umsóknina beint til sín. Sem unglingur var hún iðin og uppátækjasöm, og stofnaði kaffihús á Garðatorgi aðeins 15 ára gömul ásamt vinkonu sinni. Sumarstörfin voru m.a. í Byko og á Hótel Eddu í Nesjaskóla, hún starfaði einnig í Snælandsvídeói og á veitingahúsunum Ítalíu og Asíu samhliða námi. Eva Lind var leiðbeinandi í sunnudagaskóla í Víðistaðakirkju ásamt móður sinni og systkinunum Tobba og Jóhönnu Völu.

Eftir stúdentspróf lá leiðin til Danmerkur í ævintýraleit. Kynntist hún þar Henrik Jörgensen, samstarfsmanni á verkstæðinu „Bileplejen“ sem varð barnsfaðir hennar og síðar eiginmaður. Þau fluttu heim til Íslands 2006 og fór þá Eva Lind í viðskiptafræði í HÍ auk þess sem hún starfaði hjá afa sínum á Endurskoðunarskrifstofu ÞÞJ. Hún starfaði einnig við yfirsetustörf hjá Menntaskólanum Hraðbraut. Árið 2009 giftu þau Henrik sig um leið og yngra barnið, Elisabeth Mai, var skírð og brátt héldu þau aftur utan til Danmerkur til búsetu. Eva Lind starfaði fyrst um sinn á öldrunarheimilinu í Hornslet en fékk síðan vinnu á skrifstofu Europecar í Árósum og starfaði hún þar til dánardags.

Útförin fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 18. janúar 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

„Mamma, slökktu ljósið, lokaðu gluggunum, lokaðu dyrunum, ég ætla að loka augunum og gerð þú það líka.“ Þetta eru skilaboðin sem Eva Lind skildi eftir hjá mér á nýársdag 2013, áður en hún var sett í öndunarvél. Ég vissi vel hvað þetta táknaði og fyrir hvað þetta stóð, þó að ég vildi að sjálfsögðu halda í vonina að Eva mín kæmist til lífsins á ný.

Við höfðum staðið í baráttunni saman, frá því að ég kom út til hennar 20. desember sl., þegar ég ætlaði bara að koma og taka hana með mér heim, en það fór öðru vísi, allt allt öðru vísi en við ætluðum okkur.

Eva Lind lifði lífi þar sem hún gaf. Hún bar nafn með réttu, en nafnið hennar þýðir lifandi lind. Við sem þekkjum hana vitum að hún mun alltaf halda áfram að gefa þó að það sé sárara en tárum taki að hafa hana ekki meðal okkar hér í jarðvistinni.

Eva Lind átti dyggan vinkvennahóp, og má segja að slóð þeirra liggi allt frá bernskulóðum. Þær eru of margar til að telja þær hér upp með nafni, en yndislegar upp til hópa og voru hluti af þeim fjársjóði sem Eva Lind átti í fólkinu í kringum sig. Eva Lind elskaði bæði vinkonur sínar, vini og fjölskyldu. Eva Lind var fyrsta barnabarn ömmu Tobbý og afa Kela og var vel um hana hugsað á heimili þeirra og að sama skapi hjá ömmu Völu. Þegar við foreldrarnir fengum flugur í höfuðið að bregða okkur til útlanda var aldrei vandamál að passa, þó að fyrirvarinn væri skammur – bæði hana og svo systkini hennar Jóhönnu Völu og Þórarin Ágúst, en Hneta, labradorinn okkar var örlítill „höfuðverkur“ en átti þó skjól hjá Tonný frænku.

Við sem eftir stöndum, stöndum með flakandi sár, því verður ekki neitað, en það sem hefur verið svo stórkostlegt er að sem aldrei fyrr höfum við fundið kærleikann og samhug í vinum, vandamönnum og meira að segja hjá fólki sem er nær ókunnugt. Einhvern veginn hefur Eva Lind og hennar saga snert svo marga og því væntanlega veitt meiri kærleika inn í líf fleiri manns.

Umhyggjan, elskan og vináttan hefur verið gegnumgandandi þema í gegnum erfiða píslargöngu.

Eva Lind átti sér þá ósk að börnin hennar Ísak Máni og Elisabeth Mai yrðu alin upp í gleði og jákvæðni og við ætlum að styðja föður þeirra Henrik Jörgensen í því að uppfylla þær óskir, einnig við að sinna því ábyrgðarfulla hlutverki að taka að sér móður- og föðurhlutverk. Börnin eiga góða að, yndislega „Bedste“ og „Farfar“ í Danmörku, Þau Arne og Jenny og það þakka ég líka.

Ég vildi skrifa svo margt, en ég skrifa meira á öðrum vettvangi, þetta verður kveðjan til hennar Evu minnar og þakklæti til þeirra sem hafa hjálpað. Yndislegar vinkonur, vinir og ættingjar.

Elsku Eva mín, þakka þér fyrir að hafa verið svona yndisleg alla tíð.

Ég loka augunum og bið bænirnar okkar með þér.

Vertu, Guð faðir, faðir minn,

í frelsarans Jesú nafni,

hönd þín leiði mig út og inn,

svo allri synd ég hafni.

(Hallgrímur Pétursson.)

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum.)

Í nafni Guðs föður sonar og heilags anda.

Guð geymi þig. Góða nótt, elsku Eva Lind mín „umma“

Mamma.

Elsku Evan mín.

Margs er að sakna og minnast. Óraunverulegt, sárt og óréttlátt. Amma að sjá á eftir fyrsta barnabarni sínu. Þú sem varst best af okkur öllum en við trúum því núna: Þeir sem Guðirnir elska mest, deyja ungir.

Minningarnar þjóta í gegnum huga ömmu. Fæðing þín, við orðin afi og amma, yndislegt. Við fengum að passa þig oft, þessa yndisfögru snót og gleðigjafa.

Svo fæddust tvíburarnir Tobbi og Vala, þá varst þú orðin fimm ára. Frá byrjun axlaðir þú ábyrgð og elskaðir þau, varðst eins og önnur mamma fyrir þau, það entist út þína stuttu ævi. Samband ykkar var fallegt og hlýtt og sjá þau nú á eftir yndislegri stóru systur allt of fljótt.

Minningarnar eru margar; útilegurnar upp til fjalla, skíðaferðirnar í Bláfjöllin og í austurrísku Alpana, skógarferðirnar ykkar Eisa í Mayerhofen. Alls staðar heillaðir þú alla. Þetta eru perlur í minningarsjóð ömmu.

Ung fórstu í söngnám og pabbi þinn fór með þér. Sýnir hversu náin þið voruð. Þið sunguð svo dúett og þú einsöng í útskrift þinni sem stúdent. Eftir stúdentinn lá leið þín til Danmerkur, Árósa. Þar kynntist þú fljótlega Henrik. Amma og afi komu oft í heimsókn og elskaði afi purusteikina hans Henriks. Það var svo danskt og gott að vera hjá ykkur.

Ísak Máni fæddist í Danmörku en þið fluttuð svo til Íslands í smá tíma, þar sem þú fórst að vinna á skrifstofu afa, langaði að verða endurskoðandi, en komst fljótt að því að það yrðir þú aldrei, þú kunnir betur á fólk en tölur. Þessi tími hjá ÞÞJ var ykkur afa yndi. Þarna var afi orðinn veikur og þú barst í hann niðurskorna ávexti og vatn; „hollt skal það vera, afi minn“. Þið voruð sannarlega vinir. Ætíð hafðir þú aðra í fyrirrúmi.

Svo fæddist Elísabeth Mai. Hún var skírð í Garðakirkju, sólbjartan sumardag í júní. Allir mættir, mikil gleði, en viti menn, Brúðarmarsinn spilaður og inn kemur þú í brúðarkjól með Baldursbrár úr haga sem brúðarvönd og á tásunum. Þú gerðir hlutina öðruvísi, varst ekkert fyrir pífur og prjál, þótt amma væri stundum að reyna. Þú varst náttúrubarn. Veraldargæðin trufluðu þig ekki og þú gekkst til dyranna eins og þú varst klædd. Það fór þér yndislega vel.

Þú komst í nóvember 2009 til að kveðja afa Kela. Á líknardeildinni sast þú löngum stundum, rakaðir afa, settir sögufræga rakspírann á hann og nuddaðir svo nebbanum í hálsakotið hans til að fá lyktina, hvíslaðir svo í eyra hans: „svo fer ég aldrei aftur í bað, elsku afi minn“.

Nú ert þú, yndið mitt, búin að kveðja þennan heim, er hægt að sætta sig við það? Nei. En ég hugga mig við að nú kúrir þú í hálsakoti afa og eins og þú sagðir í einstöku bréfi sem þú skrifaðir honum við dánarbeð hans:

„En nú, afi minn, er kominn tími til að kveðja. Góða nótt, takk fyrir yndislegu kvöldstundina, hennar hefði ég ekki viljað vera án. Ég veit þú myndir segja; ég elska þig ástin mín, ef þú gætir. Svo héðan fer ég með þig í hjartanu, bros á vör og ilmandi af afa.“

Ég kveð þig að sinni, elsku Evan mín, með orðum þínum til afa.

„Góða nótt, sofðu rótt og Guð geymi þig“

Þín amma

Þorbjörg Jónsdóttir (Tobbý).

Elsku Eva Lind. Ég á erfitt með að skilja og sætta mig við að sjá ekki brosið þitt framar, geislandi augun, finna hlýjuna og væntumþykjuna sem streymdi frá þér. Heyra flissið þitt þegar við systurnar erum að bulla eða í hláturskasti.

Minningarnar um góða daga streyma fram í hugann; allt frá því þú varst í bumbunni hennar mömmu þinnar þar til ég kvaddi þig á spítalanum á fyrsta degi þessa árs.

Ég minnist þess að við mamma þín vorum þess fullvissar að þú sæir meira en við hin þegar þú varst lítil. Eitt kvöldið þegar þú varst kannski fjögurra ára og svafst á milli okkar mömmu þinnar settist þú allt í einu upp og sagðir hátt og skýrt: „Þótt fólk sé dáið lifir það samt“ og lagðist niður aftur. Við systurnar litum skelkaðar hvor á aðra, svo á þig þar sem þú svafst vært.

Ég minnist þess þegar þið Birta; bestu vinkonur og frænkur, komuð að heimsækja mig til Akureyrar, sex og sjö ára gamlar einar í flugvél, rosalega fullorðnar og við höguðum okkur eins og dömur alla helgina, allar í kjólum og fórum á veitingastað með tauservíettum og drukkum gos úr vínglösum.

Ég minnist þess þegar við tvær fórum til Hornafjarðar saman í sumarvinnu, þú tæplega tvítug og ég helmingi eldri. Þú gerðir grín að því að þessi dvöl okkar saman hefði verið mjög lærdómsrík því ég hefði kennt þér að brjóta saman fötin þín.

Ég minnist þess þegar þú kynntir okkur fyrir Henrik, þú geislaðir af hamingju og stuttu seinna kom Ísak Máni í heiminn, litli prinsinn þinn sem þú elskaðir af öllu hjarta og varst honum frábær mamma. Þó svo að klippt hafi verið á naflastrenginn var alltaf ósýnilegur strengur á milli ykkar. Svo kom hún Elisabeth Mai í heiminn, ljósritið af þér, sama skottan og með sama blikið í augunum og brosið þitt. Þú náðir að plata okkur öll í brúðkaupið þitt, boðið var til skírnar sem varð svo allt í einu að brúðkaupi, svo líkt þér elsku prakkarinn minn.

Elsku Eva mín, ég veit þú veist hversu mikið ég elska þig, ég lofa þér að ég mun elska börnin þín tvö, Ísak Mána og Elisabeth Mai, jafnmikið.

Þín

Hulda Kristín.

Elsku hjartans Eva Lind mín. Með ólýsanlega sorg í hjarta skrifa ég þér þessar línur, en jafnframt með þakklæti fallega stelpan mín. Þakklæti fyrir að hafa fengið að vera hluti af lífi þínu. Óteljandi minningar flæða fram, allt frá því þegar ég þvældist um með þig heilt sumar í risastóra Silver Cross-barnavagninum að því að dansa með þér í eintómri gleði á þrítugsafmælinu þínu. Þú fékkst stóran hluta af hjarta mínu þegar þú komst inn í líf mitt og þar verður þú alltaf. Takk fyrir elskuna sem þú gafst börnunum mínum og alla nebbakossana sem þú gafst þeim. Ég heyri í þér hlæja og hrista hausinn yfir vitleysunni í okkur systrunum og ég lofa þér því að við munum halda áfram að fá hlátursköst yfir engu og tala frá okkur allt vit. Ég veit að þú verður með okkur þá. Takk fyrir fasta knúsið þitt síðustu kveðjustundina okkar, takk Eva fyrir allar minningarnar.

Bið að heilsa fólkinu okkar, mikið hlýtur að vera gaman hjá ykkur Önnu Kristínu, faðmur afa Kela er örugglega hlýr og afi Magnús á pottþétt eftir að passa þig vel. Við sjáumst aftur hjartagull.

Þín

Charlotta (Lotta frænka).

Hinn 2. september 1981 komst þú, fallega frænka mín, í heiminn. Allt frá því að ég fékk að halda á þér þegar þú varst á fyrsta ári höfum við verið bestu frænkur og vinkonur. Ég á bara góðar minningar um þig, Eva mín, sem ég geymi í hjarta mínu. Við vorum svo nánar og góðar saman. Þegar ég hugsa um þig birtast minningar um hvað þú varst alltaf glöð og vildir fólki vel. Þú reyndir alltaf að hjálpa öllum. Þú hjálpaðir mér mikið og ég er svo þakklát fyrir.

Í gegnum lífið höfum við alltaf verið samferða. Við vorum mikið saman sem litlar stelpur og heimsóttum Huldu á Akureyri þar sem hún dekraði við okkur. Einnig áttum við margar góðar minningar úr langafabústað við Hreðavatn. Bæði úr barnæsku og, eftir að við urðum fullorðnar, með mönnunum okkar og börnunum þínum. Þegar þú fluttir til Danmerkur og náðir þér í danskan kærasta leið ekki á löngu þar til ég var komin út og krækti líka í Dana. Við giftumst í sömu kirkju hjá sama presti á sama sumri og bjuggjum í Danmörku á sama tíma.

Það er erfitt að sjá á eftir þér því við ætluðum að gera margt fleira saman. Ég lofa að hugsa vel um Ísak Mána og Elisabeth Mai og halda að þeim minningum um þig svo þau viti hvað þau áttu góða mömmu.

Elsku besta Eva Lind, ég elska þig og við sjáumst í draumum mínum. Hvíldu í friði. Ég elska þig og sakna þín.

Þín frænka og vinkona,

Birta.

Elsku Eva Lind, mín besta vinkona. Hér sit ég og hugsa um allar yndislegu minningarnar sem ég á um þig síðustu 25 ár. Guð hefur ákveðið að taka þig til sín en ég veit að hann ætlar þér stórt hlutverk annars staðar. Þú varst mér miklu meira en vinkona, þú varst fjölskyldan mín. Við höfum alltaf fundið fyrir hvor annarri, oft heyrðumst við ekki í einhvern tíma en það skipti engu máli því þannig vorum við. Ef annarri leið illa þá fann hin það strax, við gátum aldrei falið neitt fyrir hvor annarri. Eins og þegar ég var ólétt þá vissir þú það strax, áður en ég sagði nokkrum frá því.

Ég á svo margar góðar minningar um þig. Þegar við vorum í grunnskóla í AB bekknum, besta bekknum og við elskuðum kennarann okkar. Bjuggum til lag um hana og gáfum henni gjafir. Þegar við vorum unglingar og unglingavinnan var ekki málið þá datt þér í hug að við mundum stofna kaffihús á Garðatorgi. Þar seldum við vöfflur og kakó og stjönuðum í kringum viðskiptavini okkar. Þegar við breyttum stofunni heima hjá þér í dansgólf, settum Páls Óskars diskinn í og dönsuðum. Við áttum bók þar sem við skrifuðum öll okkar leyndarmál og földum á bak við ramma í herberginu þínu. Skrifuðum endalaust af bréfum til hvor annarrar í Garðaskóla og líka í FG, það var ekki nóg að tala saman við vorum líka pennavinkonur. Yndislegar minningar sem ég á og mun lesa til að minnast þín.

Þegar við fórum á bingó og komum heim með fangið hlaðið af vinningum, þ.ám. gistingu á Hótel Íslandi þar sem við fórum tvær og nutum okkar í botn. Gerðum handahlaup á göngunum, heljarstökk á rúmið, héngum í gluggatjöldum en pössuðum að hafa ekki of mikil læti því við vildum ekki trufla aðra. Þegar þú komst heim frá Ameríku eftir að hafa lifað Clueless-tímabilið þitt, í bleiku hnepptu peysunni, bleika pilsinu, hvítum hnésokkum, krullur í hárinu og með fjaðrapennann. Við vorum barnalegar og höfum alltaf verið og við vorum stoltar af því. Ég man svo vel þegar við skírðum dóttur okkar í höfuðið á þér, Rakel Eva, þegar ég nefndi nafnið og leit svo til þín svo fallegrar, brosandi og tárin láku niður kinnar þínar af gleði. Við áttum yndislega helgi saman vinkonurnar hjá þér í Danmörku á síðasta ári sem ég mun aldrei gleyma. Sushi, hvítvín, flatsæng, DVD, hlátur, grátur, gleði og knús.

Mín stærsta minning er þegar þú söngst eins og engill í brúðkaupinu mínu, við fengum yndislega ræðu frá þér í veislunni og þegar við stóðum og kvöddumst í langan tíma á miðju dansgólfinu grátandi og hlæjandi. Þessa táknrænu stund mun ég geyma í hjarta mínu því þetta var í síðasta sinn sem ég sá þig lífsglaða og heilbrigða. Þú varst einstök manneskja sem allir elskuðu og þú passaðir að öllum liði vel í kringum þig. Þú kenndir mér svo margt og ég hef alltaf litið upp til þín, svo jákvæð, einstök móðir, tilfinningarík og vinur vina þinna. Þér var sama um veraldlegu hlutina, þú vissir hvað skipti máli í lífinu, að njóta. Í dag kveð ég þig, engillinn minn, en ég veit að þú verður alltaf hjá mér. Guð geymi þig, elsku besta vinkona mín. Við sjáumst seinna.

Þín,

Karitas.

Það er með mikilli sorg í hjarta sem ég kveð einstaka og yndislega manneskju, Evu Lind, sem er farin langt fyrir aldur fram. Við kynntumst á fyrstu árum okkar í Flataskóla og urðum strax miklar og nánar vinkonur enda var einstaklega auðvelt að líka vel við Evu. Vináttan óx hratt og fljótlega vorum við farnar að gera allt saman, klæða okkur eins og systur og gista saman hverja helgi. Til þess að geta gert allt saman aðlöguðum við áhugamálin hvor að annarri. Eva söng eins og engill og var í skólakórnum. Mamma mín og pabbi voru mjög hissa þegar ég tilkynnti þeim að ég væri byrjuð í kórnum þar sem mínir sönghæfileikar eru mjög takmarkaðir. Við fengum að fara saman í ófá fríin með fjölskyldum hvor annarrar. Ein ferð er mér mjög í minni en það er þegar við fórum saman til Flórída með fjölskyldu Evu. Jóga og Nonni tóku mér alltaf einstaklega vel og mér leið alltaf eins og ég væri hluti af fjölskyldunni. Árin liðu og ólík áhugamál okkar urðu til þess að við fjarlægðumst á unglingsaldri en við fylgdumst þó alltaf hvor með annarri í gegnum tíðina. Eva var einstaklega hjartahlý manneskja, glaðlynd og vildi öllum vel. Ég mun geyma allar okkar samverustundir í hjarta mínu um ókomna tíð. Elsku æskuvinkona, það eru forréttindi að hafa fengið að kynnast þér og eiga með þér tíma.

Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur til Jógu, Nonna, Elísabetar Mai, Ísaks Mána, Tobba, Völu og annarra fjölskyldumeðlima.

Klara Íris Vigfúsdóttir.

Elsku Eva Lind okkar. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur, það er bara til ein Eva Lind. Minning þín lifir í hjörtum okkar.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Minningarnar um yndislegu Evu Lind hjálpa okkur sem eftir stöndum að finna lífinu á ný jákvæðan farveg.

„Fly on the wings of love.“

Þínar Gellur Jóns,

Birna Rún Pétursdóttir, Erla Gunnarsdóttir, Guðrún Halla Hafsteinsdóttir,

Karitas Sæmundsdóttir, Kristíana Kristjánsdóttirog Þórey Gunnarsdóttir.

Hvers vegna er lífið svona ósanngjarnt? Af hverju er þessi glaðlega, brosmilda stelpa hrifin burt frá ungum börnum langt fyrir aldur fram? Spurningum sem þessum er erfitt að svara.

Eva Lind var glaðvær, frændrækin, hjálpsöm og umfram allt dugleg. Hún hreif alla með sér með sinni einlægu framkomu og hlýlegu nærveru.

Minningar um frænku okkar eru góðar. Við hittumst alltaf reglulega þó svo að þeim stundum hafi fækkað þegar árin liðu og hver okkar fór á sinn stað í lífinu. En það er ekki alltaf magnið sem skiptir málið heldur gæðin. Þessir „frænkuhittingar“ eins og við kölluðum þá voru svo sannarlega gæðastundir. Þar fór ekkert á milli mála að Eva Lind lifði lífinu til fulls og naut sín vel í móðurhlutverkinu. Eva Lind var einstaklega hjálpsöm og var ávallt boðin og búin að leggja fram hjálparhönd. Minnisstæðast er þegar önnur okkar ákvað að flytjast búferlum til Danmerkur en þá sá Eva um að allt gengi sem best og teiknaði nánasta umhverfi fyrir ferðalanginn svo hún myndi ekki villast, hjálpaði til við íbúðarleit og annað sem til fellur þegar flutt er í nýtt land.

Það varð ekkert úr frænkuhittingnum okkar sem átti að vera þessi jólin en hann verður síðar. Þá teiknar þú fyrir okkar mynd af nýja staðnum svo að allir rati rétta leið.

Við sendum börnum, foreldrum, systkinum og öðrum ættingjum og vinum Evu Lindar okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ásdís Björk og Erla Dögg Kristjánsdætur.

Elsku uppáhalds.

Mér hefur alltaf fundist ég vera heppnasta manneskja í heimi að eiga þig að sem vinkonu. Í dag finnst mér ég vera óheppnasta manneskja í heimi. Að þurfa að kveðja þig, bestu vinkonu mína til tuttugu ára, er óendanlega sárt. Ég talaði síðast við þig í símann á afmælisdaginn minn, 19. desember, þar sem þú varst nýkomin inn á spítala. Aldrei í lífinu hefði mér dottið í hug að ég væri að skrifa minningargrein um þig tæpum mánuði síðar. Hraustu og heilbrigðu vinkonu mína sem ég tók á móti í mark eftir hálfmaraþon í Danmörku síðasta sumar.

En minningarnar ylja mér um hjartarætur. Ég er svo innilega þakklát fyrir þær ótalmörgu minningar sem ég á með þér. Það var alltaf gaman hjá okkur þegar við hittumst. Stóran hluta af samverustundum okkar vorum við skellihlæjandi, gerandi grín hvor að annarri og okkur sjálfum og með sama aulahúmorinn. Að sama skapi varstu mjög tilfinninganæm og skynjaðir það alltaf strax ef ég var ekki alveg eins og ég átti að mér að vera.

Það er fátt sem við höfum ekki gert saman. Á menntaskólaárunum vörðum við öllum frístundum saman. Við vorum algjör samloka og það voru ófá skiptin sem ég gisti á sófanum í Álfaskeiðinu. Sumarið 2000 er sérstaklega minnisstætt þegar við fórum til Marbella á Spáni í spænskuskóla. Við höfðum engan tíma til að læra spænskuna því sólbekkirnir á ströndinni heilluðu meira en þar lágum við, kjöftuðum og hlógum. Það endaði á því að við vorum færðar niður um bekk í skólanum en okkur var alveg sama. Við vorum himinlifandi með þetta og áttum frábæran tíma saman úti í fimm vikur.

Þegar þú fluttist til Danmerkur fannst mér alltaf mjög erfitt að hafa þig svona langt í burtu. Það var því hvert tækifæri nýtt, síðustu tvö ár, þegar við bjuggum í Kaupmannahöfn til að hittast. Við létum enga 200 km sem voru á milli stoppa okkur og á ég margar skemmtilegar og góðar minningar frá samverustundum okkar bæði í Kaupmannahöfn og úti á Jótlandi. Við þræddum hvern skemmtigarðinn á fætur öðrum með krakkana okkar sem gátu kynnst svo vel. Það var því okkur báðum mjög erfitt þegar við fjölskyldan fluttumst aftur til Íslands síðasta sumar.

Ég kveð þig með miklum söknuði og sorg. Alltaf svo glaðlynd, jákvæð og yndisleg. Stórt skarð hefur myndast í vinkvennahópinn okkar, allt of snemma. Ég trúi því að þú sért komin til afa Kela sem þú varst svo mjög náin og þótti afar erfitt að kveðja fyrir þremur árum. Ég votta Ísak Mána og Elisabeth Mai samúð mína alla, að missa yndislegu mömmu sína allt allt of snemma.

Við sjáumst seinna.

Þín uppáhalds.

Karen Íris Bragadóttir.

Það er ólýsanleg tilfinning að þurfa að kveðja æskuvinkonu sína svona unga. Eva Lind var sú stúlka sem öllum líkaði við. Hress og kát og alltaf stutt í hláturinn. Vesen og vandræði var eitthvað sem var ekki til í hennar orðabók og breytti hún öllum erfiðleikum í gleði. Hún var mikil draumóramanneskja og lét ekkert stöðva sig í að reyna að fá þá uppfyllta. Síðasti draumur hennar var að verða rithöfundur, enda mjög góður penni. Hún var farin að skrifa smásögur fyrir blað úti í Danmörku og stefndi á frekara nám þar áður en að lífið tók skyndilega enda.

Það er svo skrýtin tilfinning að þú sért farin, Eva mín. Í huga mínum ertu enn þá fullfrísk og geislandi af gleði úti í Danmörku. Ég bið góðan Guð að blessa þig og varðveita. Yndislegar minningar um þig munu vara að eilífu.

Elsku Ísak Máni, Elísabet Maí, Nonni, Jóga, Vala, Tobbi og aðrir ástvinir; Guð styrki ykkur og gefi að sorgin víki með tímanum og góðu minningarnar fylli huga ykkar í staðinn.

En meðan árin þreyta hjörtu hinna,

sem horfðu eftir þér í sárum trega,

þá blómgast enn, og blómgast ævinlega,

þitt bjarta vor í hugum vina þinna.

Og skín ei ljúfast ævi þeirri yfir,

sem ung á morgni lífsins staðar nemur,og eilíflega, óháð því, sem kemur,

í æsku sinnar tignu fegurð lifir?

Sem sjálfur Drottinn mildum lófum lyki

um lífsins perlu í gullnu augnabliki.

(Tómas Guðmundsson.)

Þín vinkona.

Heiðdís.

HINSTA KVEÐJA
Svo er því farið:
Sá er eftir lifir
deyr þeim sem deyr
en hinn dáni lifir
í hjarta og minni
manna er hans sakna.
Þeir eru himnarnir
honum yfir.
(Hannes Pétursson)
Þorbjörg Höskuldsdóttir
(Tonný frænka).